Erlent

Íranar sýna hvað þeir geta

Flugskeyti skotið á loft Nýja flugskeytið kemst tvö þúsund kílómetra og getur borið allt að þúsund kílógramma þunga sprengihleðslu. nordicphotos/AFP
Flugskeyti skotið á loft Nýja flugskeytið kemst tvö þúsund kílómetra og getur borið allt að þúsund kílógramma þunga sprengihleðslu. nordicphotos/AFP

Íranski herinn skaut upp í tilraunaskyni flugskeyti af nýrri og fullkominni gerð, sem dregur nógu langt til að bæði Ísrael og bandarískar herstöðvar við Persaflóa eru í skotfæri.

Alls gerðu Íranar tilraunir með flugskeyti í þremur lotum í gær og á sunnudag. Prófaðar voru nýjar og endurbættar útgáfur af flugskeytum af gerðinni Shahab-3 og Sajjil.

„Írönskum flugskeytum er hægt að miða á alla staði, sem Íran stafar ógn af,“ sagði Abdollah Araqi, yfirmaður í íranska hernum.

Tilraunirnar hófust aðeins tveimur dögum eftir að Bandaríkin og fleiri ríki ljóstruðu upp að Íranar hafi með leynd reist aðra kjarnorkutilraunastöð þar sem úran er auðgað.

Íranar voru harðlega gagnrýndir og skorað á þá að leyfa alþjóðlegum kjarnorkueftirlitsmönnum að skoða nýju stöðina. Vaxandi spenna hefur verið vegna kjarnorkuáforma Írana.

Javier Solana, utanríkismálafulltrúi Evrópusambandsins, segir Írana verða án tafar að leysa úr deilum sínum við umheiminn.

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist ekki telja að Íranar geti sannfært aðra um að þeir ætli sér einungis að vinna kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×