Innlent

FME var bundið af of þröngri löggjöf

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.

Evrópusambands-aðild og upptaka evru myndi leysa vandann sem fylgir smárri og sveiflukenndri mynt, segir Karlo Jännäri, einn helsti bankasérfræðingur Finna. Hans skoðun sé að Íslandi væri hollast að fara að dæmi Finna í endurreisn. Jännäri kynnti í gær skýrslu um reglur og eftirlit með bankastarfsemi hér.

Jännäri rekur hrun bankakerfisins til þátta sem lýsa mætti sem blöndu af slökum bankarekstri, lélegri stefnu og óheppni. Hann áréttar þó að regluverk hér hafi verið með sama hætti og gerist á Evrópska efnahagssvæðinu og sömu annmörkum háð. Þá hafi hendur Fjármálaeftirlitsins (FME) verið bundnar um of af þröngri löggjöf. Mælist Jännäri til þess að við endurskoðun á lagaumgjörð hér verði haldið í auknar valdheimildir FME úr neyðarlögunum sem samþykkt voru í haust. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir koma til greina að gera það.

Jännäri telur hæpið að hér verði byggt upp á ný risastórt bankakerfi. „Það gengi ekki meðan krónan er gjaldmiðill. Og jafnvel gæti það verið örðugt með evrunni, vegna vafamála um hvort Seðlabanki Evrópu sé í raun lánveitandi til þrautavara fyrir aðildarríkin."

Ragnar Hafliðason, starfandi forstjóri FME, telur skýrslu Jännäris gefa nokkuð raunsanna mynd af því hvernig málum hafi verið háttað. „Og þar kemur Fjármálaeftirlitið ekkert illa út, þótt auðvitað sé ýmislegt gagnrýnt," segir hann, en telur vandséð hvort eftirlitsstofnanir hefðu getað gengið harðar fram gegn bönkunum og látið þá um að sækja rétt sinn fyrir dómstólum teldu þeir á sér brotið. Jännäri benti á að slíkt kynni að hafa verið gert annars staðar. „En hér er nú ekki hefð fyrir slíku," segir Ragnar. - óká /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×