Innlent

Ríkisforstjórar enn á hærri launum en forsætisráðherra

Breytingum á lögum um kjararáð sem gerðar voru á Alþingi í júli er ætlað að sjá til þess að enginn hjá ríkinu nema forsetinn fái hærri laun en forsætisráðherra.FréttablaÐIÐ/aNTON
Breytingum á lögum um kjararáð sem gerðar voru á Alþingi í júli er ætlað að sjá til þess að enginn hjá ríkinu nema forsetinn fái hærri laun en forsætisráðherra.FréttablaÐIÐ/aNTON

„Þetta tekur tíma og ég held að það verði ekkert að frétta í þessum mánuði,“ segir Guðrún Zoëga, formaður kjararáðs, um það hvenær vænta megi niðurstöðu ráðsins varðandi ný launakjör hjá æðstu stjórnendum hjá ríkinu og ríkisfyrirtækjum.

Alþingi samþykkti í júlí breytingar á lögum um kjararáð sem fela í sér að mun fleiri en áður falli undir ákvarðanir ráðsins varðandi launakjör. Um er að ræða framkvæmdastjóra félaga í meirihlutaeigu ríkisins og framkvæmdastjóra félaga sem ríkisfélögin eiga meirihluta í. Þá á kjararáð að ákveða laun forstöðumanna Samkeppniseftirlitsins, Seðlabankans, Byggðastofnunar, Fjármálaeftirlitsins, Íbúðalánasjóðs og Nýsköpunarsjóðs.

Sérstaklega er kveðið á um að fyrir dagvinnu eigi enginn nema forseti Íslands að hafa hærri laun en forsætisráðherra, sem nú hefur 935 þúsund króna mánaðarlaun. Að sögn meirihluta efnahags- og skattanefndar Alþingis er meginmarkmiðið að lækka launakostnað ríkisins. Um skammtímaráðstöfun í ljósi efnahagsástandsins sé að ræða.

jÓHANNA sIGURÐARDÓTTIR

Guðrún Zoëga segir málið enn í undirbúningi hjá kjararáði. Ekki sé enn fullkomlega ljóst hverjir heyri samkvæmt lagabreytingunni undir ákvarðanir ráðsins. „Sumt er náttúrlega tekið sérstaklega fram í lögunum en annað ekki. Við þurfum að fá nákvæmar upplýsingar um hverjir þetta eru og erum búin að óska eftir því frá fjármála­ráðuneytinu,“ segir formaður kjararáðs.

Dæmi um ríkisstarfsmann sem enn fær hærri laun en forsætisráðherra er seðlabankastjóri. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum nema mánaðarlaun Más Guðmundssonar 1.575.000 krónum í samræmi við ákvörðun sem bankaráðið tók. Þetta eru tæplega sjötíu prósentum hærri laun en hjá forsætisráðherra.

Már Guðmundsson

Formaður kjararáðs bendir á að samkvæmt stjórnsýslulögum sé hluti af ferlinu fram undan að gefa þeim starfsmönnum sem breytingarnar taki til færi á að gefa umsögn um sín mál. Til þess fái þeir tvær vikur. Þessi vinna fari af stað á næstu dögum. Þar til niðurstaða kjararáðs liggur fyrir breytast laun umræddra starfsmanna ekki. „Þeir eru náttúrlega á sínum fyrri kjörum þar til ný ákvörðun verður tekin,“ segir Guðrún Zoëga.

Hjá fjármálaráðuneytinu er nú unnið að því að taka saman gögnin fyrir kjararáð:

„Það þarf að senda bréf til umræddra fyrirtækja og afla upplýsinga,“ útskýrir Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×