Fótbolti

Ég er hættur og það er Maradona að kenna

Juan Roman Riquelme á fullri ferð með Boca Juniors.
Juan Roman Riquelme á fullri ferð með Boca Juniors. Mynd/AFP

Juan Roman Riquelme er hættur að spila fyrir argentínska landsliðið og er þetta í annað skiptið á þremur árum sem kappinn tilkynnir að landsliðsskórnir séu komnir upp á hillu. Að þessu sinni er það landsliðsþjálfaranum Diego Maradona að kenna.

„Landsliðsferillinn minn er búinn. Ég ætla að horfa á næstu heimsmeistarakeppni í sjónvarpinu," sagði Riquelme í sjónvarpsviðtali en hann spilar nú með Boca Juniors.

„Ég og Maradona hugsum ekki eins og við höfum ekki sömu siðareglur. Ég get ekki unnið með honum og spila því ekki fyrir landsliðið á meðan að hann er þjálfari," sagði Riquelme harðorður og gat ekki leynt svekkelsi sínu en Maradona gagnrýndi hann opinberlega á dögunum.

Riquelme hætti fyrst efir HM 2006 en lét síðan undan pressu að gefa aftur kost á sér eftir að hafa spilað frábærlega með Boca Juniors og leitt liðið til sigurs í Suður-Ameríku keppni félagsliða.

Riquelme er búinn að elik 50 landsleiki og skora 17 mörk fyrir Argentínu en hann var ekki með í tveimur fyrstu leikjum Argentínu undir stjórn Maradona þar sem að hann var upptekin með Boca Juniors. Það kom þó ekki að sök því Argentína vann bæði Skotland og Frakkland.

„Ég myndi deyja fyrir argentínska landsliðið og því verður það mjög sárt að horfa á HM í sjónvarpinu," sagði Riquelme en vonaðist samt til að landsliðinu gengi vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×