Innlent

Skatttekjur hafa lækkað í kreppunni

Skatttekjur í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) drógust saman í takt við efnahagsþrengingar síðasta árs, samkvæmt nýbirtum tölum.

„Samanlögð skattbyrði innan OECD, reiknuð sem hlutfall skatttekna í samanburði við landsframleiðslu, var óbreytt milli áranna 2006 og 2007, en féll árið 2008. Samdráttur skattbyrði árið 2008 telst að jafnaði nema 0,5 prósentum af landsframleiðslu, úr 35,8 prósentum í 35,2 prósent samkvæmt áætlun," segir í tilkynningu.

Fram kemur að víðast hvar hafi skattar dregist saman sem hlutfall af landsframleiðslu á síðasta ári og líkur séu á að sú þróun hafi haldið áfram á þessu ári. „Skattheimta dregst oft meira saman en nemur samdrætti landsframleiðslu í kreppu, en við það bætist að mörg ríkja OECD lækkuðu skatta undir árslok 2008 og í byrjun 2009 til að styðja við eftirspurn eftir fjármálahrunið í september 2008."

Skattheimta í hlutfalli við landsframleiðslu er langmest í Danmörku, eða 48,3 prósent. Hér var hlutfallið 40,9 prósent árið 2007, en féll í fyrra niður í 36,0 prósent. Á Spáni fóru tölurnar á sama tíma úr 37,2 prósentum í 33 og úr 30,8 prósentum í 28,3 á Írlandi. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×