Innlent

Eitt A4 bréf dugar til ESB

Bygging ráðherraráðs ESB í Brussel, þangað sem aðildarumsóknir eru sendar. fréttablaðið/Auðunn
Bygging ráðherraráðs ESB í Brussel, þangað sem aðildarumsóknir eru sendar. fréttablaðið/Auðunn

 Til að sækja um aðild að Evrópusambandinu nægir að ákvörðunin um að gera það hafi verið samþykkt af einföldum meirihluta þings og ríkisstjórnin sendi í framhaldinu bréf til Brussel þar sem óskað er eftir aðildarviðræðum.

Bréf þetta er sent á skrifstofu ráðherraráðs ESB í Justus-Lipsius-byggingunni að Lagastræti 175 (Rue de la Loi/Wetstraat) í „Evrópuhverfinu“ í belgísku höfuðborginni. Eftir móttöku bréfsins er það sent áfram af skrifstofu ráðherraráðsins skáhallt yfir götuna, á stækkunarmálaskrifstofu framkvæmdastjórnar sambandsins, með beiðni um að hún leggi mat á aðildarhæfni viðkomandi umsóknarríkis.

Vinnsla þessa mats framkvæmdastjórnarinnar getur tekið fáeina mánuði. Í tilfelli Íslands, sem er nátengt sambandinu í gegn um EES-samninginn, ætti það mat þó að vera fljótunnið.

Þegar þetta mat liggur fyrir er það lagt fyrir ráðherraráðið, skipað utanríkisráðherrum aðildarríkjanna 27. Á grundvelli þessa mats tekur ráðið afstöðu til þess hvort hefja beri aðildarviðræður við umsóknarríkið. - aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×