Erlent

Verja frambjóðendur fyrir skókasti

Frá framboðsfundi í Indlandi nýverið.
Frá framboðsfundi í Indlandi nýverið. MYND/AP
Yfirvöld á Indlandi hafa gripið til sérstakra öryggisráðstafana í þingkosningunum sem nú standa yfir til að verja frambjóðendur fyrir skókasti.

Indland er stórt land og þar er kerfið þungt í vöfum. Um 700 milljónir manna hafa kosningarétt á Indlandi og þingkosningunum lýkur því ekki fyrr en um miðjan maí.

Á þeim tíma geta ansi margir skór flogið og því hefur nú verið gripið til ráðstafana til þess að verja frambjóðendur fyrir skókasti.

Upphafið er auðvitað rakið til íraska blaðamannsins sem fleygði skóm sínum að George Bush, fyrrverandi forseta.

Á Indlandi eins og í arabaríkjunum er það talið merki um mikla óvirðingu að fleygja skóm í fólk. Þónokkrum frambjóðendum hefur þegar verið sýnd slík óvirðing.

Því hefur verið gripið til þess ráðs að láta þá sem mæta á framboðsfundi fara úr skóm sínum, auk þess sem reist verður girðing fyrir framan ræðumennina.

Skókast er þó ekki það sem menn óttast mest heldur hryðjuverkaárásir. Maóistar hafa hótað á árásum og í gær létust sautján manns þegar þeir gerðu árás á einn af kjörstöðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×