Enski boltinn

Tíu bestu Bosman-bitarnir

Elvar Geir Magnússon skrifar

Janúarglugginn er galopinn. Blaðamenn The Sun tóku saman lista yfir tíu þekkta leikmenn sem verða samningslausir næsta sumar og sumir þeirra gætu því verið á förum nú í janúar.

Mark Viduka, Henrik Larsson, Jermaine Pennant, Leroy Lita og Maniche bönkuðu allir á listann en fengu ekki pláss.

10. Lucas Neill

Ástralski varnarmaðurinn er líklegur til að yfirgefa West Ham bráðlega. Hann er 31. árs og þrátt fyrir að vera gagnrýndur fyrir launakröfur sínar þá er ekki hægt að neita því að hann hefur gert margt gott fyrir Hamrana.

9. Steve Harper

Varamarkvörður Newcastle hefur ekki skrifað undir nýjan samning. Shay Given er að hugsa sín mál og bíður Harper örugglega eftir því að það skýrist hvað Given gerir. Allavega mun Harper líklega spila sem aðalmarkvörður í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

8. Sean Davis

Framtíð hans hjá Portsmouth er í óvissu. Davis er 29 ára og eru líklega mörg lið sem eru til í að njóta starfskrafta þessa fyrrum leikmanns Tottenham og Fulham.

7. Ryan Giggs

Ljóst er að Manchester United mun ekki bjóða Giggs lengri samning en til eins árs. Dögum Giggs í byrjunarliðinu hefur fækkað verulega og gætu orðið enn færri með komu Zoran Tosic. Tveggja ára samningur frá öðru félagi gæti orðið til þess að Giggs, sem er 35 ára, yfirgæfi Old Trafford.

6. Carlos Kameni

Það eru ekki margir svartir markverðir sem hafa náð að slá í gegn. Kameni hefur hinsvegar vakið athygli fyrir lipur tilþrif með Espanyol á Spáni. Er 25 ára sem í markmannsárum er ansi lítið.

5. Gary Neville

Rafael da Silva hefur vakið mikla athygli og sett framtíð Gary Neville hjá Manchester United í óvissu. Búist er við að Neville fái nýjan samning hjá United en Wes Brown er einnig að berjast um sæti í liðinu og því ólíklegt að hann fái mikið að spila. Mun hann feta í fótspor bróður síns og kveðja Old Trafford?

4. Emile Heskey

Hver bjóst við því þegar Heskey fór frá Liverpool að hann yrði orðaður við liðið aftur? Þessi 31. árs sóknarmaður endurheimti sæti í enska landsliðshópnum.

3. Mark van Bommel

Þessi hollenski miðjumaður gæti verið á leið frá Bayern München. Tottenham var nálægt því að kaupa hann fyrir þremur árum en á endanum fór hann til Barcelona. Van Bommel verður 32 ára í apríl.

2. Daniel Sturridge

Af hverju er ein helsta vonarstjarna Manchester City að verða samningslaus? Hann fær pottþétt nýtt samningstilboð frá City en hann gæti leitað annað enda stefnir í ansi harða samkeppni um sæti í liði City.

1. Michael Owen
Owen hefur verið mikið meiddur á ferli sínum en enginn efast um hæfileika þessa 29 ára sóknarmanns. Hann býr yfir frábærri tölfræði og skilar alltaf mörkum. Maður sem má aldrei útiloka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×