Íslenski boltinn

Umfjöllun: Baráttusigur Fylkis í slag spútnikliðanna

Ómar Þorgeirsson skrifar
Fylkismaðurinn Ingimundur Níels Óskarsson og Stjörnumaðurinn Birgir Hrafn Birgisson.
Fylkismaðurinn Ingimundur Níels Óskarsson og Stjörnumaðurinn Birgir Hrafn Birgisson. Mynd/Anton

Fylkir vann góðan 2-1 sigur gegn nýliðum Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í Árbænum í kvöld en staðan var 1-1 í hálfleik. Sigurmark Fylkis kom úr vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok.

Fylkismenn voru annars ívið sterkari aðilinn í fyrri hálfleik á Fylkisvelli í kvöld án þess þó að nýta marktækifæri sín framan af leik og það var ekki fyrr en á síðustu fimm mínútum hálfleiksins sem hlutirnir fóru að gerast.

Ólafur Ingi Stígsson skoraði gott skallamark fyrir Fylki á 41. mínútu eftir hornspyrnu Ingimundar Níelsar Óskarssonar en Ingimundur Níels hafði reyndar komið boltanum í netið stuttu áður en markið var þá dæmt af vegna rangstöðu.

Stjörnumenn voru nálægt því að jafna leikinn í næstu sókn þegar Ellert Hreinsson átti hörku skalla að marki Fylkis en markvörðurinn Ólafur Þór Gunnarsson var á tánum og náði að koma höndum á boltann og bjarga í horn.

Stjörnumenn héldu pressunni hins vegar áfram áfram og hún skilaði sér í jöfnunarmarki í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Varnarmenn Fylkis náðu þá ekki að koma boltanum í burtu eftir mikið klafs í teignum og Halldór Orri Björnsson var réttur maður á réttum stað og skoraði með föstu skoti af stuttu færi. Liðin fóru því til búningsherbergja í hálfleik með sitt markið hvort.



Flautusinfónía á Fylkisvelli

Í seinni hálfleik færðist gríðarleg harka í leikinn enda mikið í húfi fyrir bæði lið auk þess sem blautur völlurinn bauð upp á fljúgandi tæklingar og mikinn hasar.

Ágætur dómari leiksins Kristinn Jakobsson hafði því í nógu að snúast og var eflaust orðinn hás á flautunni þegar líða tók á hálfleikinn. Halldór Orri var annars nálægt því að koma Stjörnunni yfir snemma í seinni hálfleik en skot hans hafnaði í slánni á marki Fylkis.

Eftir það var ekki mikið um opin marktækifæri í þó nokkurn tíma og raunar flest sem benti til þess að leikurinn myndi enda með jafntefli. Síðustu tíu mínútur leiksins voru hins vegar æsispennandi.

Stjörnumenn gerðu tilkall til vítaspyrnu þegar Alfreð Elías Jóhannsson féll í teignum en Kristinn ákvað að flauta ekki.

Flautan fékk þó að hljóma stuttu síðar hinum megin á vellinum þegar Ásgeir Börkur Ásgeirsson var togaður niður í vítateig Stjörnunnar eftir baráttu við Jóhann Laxdal og vítaspyrna því réttilega dæmd.

Albert Brynjar Ingason fór svellkaldur á vítapunktinn og skoraði af fádæma öryggi á 84. mínútu og það reyndist vera sigurmarkið í leiknum.

Rándýr Þrjú stig í hús hjá Fylkismönnum sem náðu þar með að styrkja stöðu sína í þriðja sætinu þar sem liðin í 4.-6. sæti, Keflavík og Valur ásamt Stjörnunni, töpuðu öll sínum leikjum.

Fylkir og Stjarnan hafa annars bæði komið hressilega á óvart í sumar og boðið upp á skemmtilegan sóknarbolta þó svo að þessi leikur verði ef til vill ekki í minnum hafður sem fallegur fótboltaleikur þá vantaði ekki hasarinn og ekkert var gefið eftir í baráttunni.

Stjörnumenn hafa nú hins vegar tapað þremur leikjum í röð og þurfa að fara að taka sér tak ef þeir ætla sér að vera með í baráttunni við Fylki og fleiri lið um Evrópusæti.

Tölfræðin:



Fylkir - Stjarnan 2-1

1-0 Ólafur Ingi Stígsson (41.)

1-1 Halldór Orri Björnsson (45.+3)

2-1 Albert Brynjar Ingason (84.)

Fylkisvöllur, áhorfendur 883

Dómari: Kristinn Jakobsson (7)

Skot (á mark): 12-10 (6-5)

Varin skot: Ólafur Þór 3 - Bjarni Þórður 4

Horn: 7-6

Aukaspyrnur fengnar: 17-16

Rangstöður: 4-2

Fylkir (4-3-3)

Ólafur Þór Gunnarsson 7

Arnar Þór Úlfarsson 4

(39., Theódór Óskarsson 6)

Einar Pétursson 6

Kristján Valdimarsson 6

Þórir Hannesson 5

Halldór Arnar Hilmisson 4

(54., Pape Mamadou Faye 5)

*Ólafur Ingi Stígsson 7 - maður leiksins

Ásgeir Börkur Ásgeirsson 6

Ingimundur Níels Óskarsson 7

(85., Kjartan Andri Baldvinsson -)

Albert Brynjar Ingason 6

Kjartan Ágúst Breiðdal 5



Stjarnan (4-5-1)

Bjarni Þórður Halldórsson 7

Jóhann Laxdal 5

Tryggvi Sveinn Bjarnason 5

(58., Baldvin Sturluson 5)

Daníel Laxdal 7

Hafsteinn Rúnar Helgason 6

Arnar Már Björgvinsson 4

(74., Heiðar Atli Emilsson -)

Björn Pálsson 5

Guðni Rúnar Helgason 6

Ellert Hreinsson 4

Halldór Orri Björnsson 7

Alfreð Elías Jóhannesson 4

(81., Bjarki Páll Eysteinsson -)



Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins var með beina lýsingu frá leik Fylkis og Stjörnunnar í 16. umferð Pepsi-deildar karla.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina og lesa lýsingu leiksins: Fylkir - Stjarnan






Fleiri fréttir

Sjá meira


×