Erlent

Seljendur farsíma í Mexíkó þurfa að taka fingrafarasýni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Símafyrirtæki í Mexíkó þurfa að taka fingrafarasýni af öllum farsímakaupendum þegar ný lög taka gildi þar í apríl.

Mexíkósk yfirvöld leggja þessa dagana ofurkapp á að berjast gegn uppgangi kókaínbaróna sem þykja orðnir heldur atkvæðamiklir svo sem sjá má af stóraukinni tíðni mannrána, morða og blóðugra bardaga á götum úti. Einn liður þessarar baráttu er ný löggjöf um farsímanotkun sem skyldar söluaðila farsíma til að koma sér upp heilmiklum gagnagrunni með fingraförum viðskiptavina sinna.

Með þeim grunni á að vera hægt að rekja öll nafnlaus símtöl og skilaboð til ákveðinnar persónu, að minnsta kosti til upphaflegs kaupanda símans hversu langt sem það nær. Þarna telja yfirvöld í Mexíkó sig geta verið skrefinu á undan mannræningjum sem nota farsíma til að krefjast lausnargjalds fyrir þá sem þeir hafa rænt en slík mannrán eru nánast daglegt brauð í Mexíkó.

Þar í landi nota 80 milljónir manna farsíma svo gagnagrunnurinn ætti fljótt að verða myndarlegur. Lögin ná þó eingöngu til kaupenda nýrra síma en tugir milljóna símnotenda ganga nú um með óskráða síma og nota fyrirframgreiddar inneignir. Þessa notendur vill lögreglan í Mexíkó nú kortleggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×