Enski boltinn

Tevez býst við að fara frá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez og Hermann Hreiðarssons skiptast á vel völdum orðum.
Carlos Tevez og Hermann Hreiðarssons skiptast á vel völdum orðum. Nordic Photos / Getty Images

Carlos Tevez á von á því að hann muni fara frá Manchester United nú í sumar. Það segir hann í samtali við enska götublaðið News of the World.

„Mér þykir þetta mjög miður en ég býst við því að ég sé að kveðja liðið," sagði Tevez. „Ég á ekki von á því að ég verði leikmaður Manchester United á næstu leiktíð. Ég hef reynt hvað ég get en félagið hefur aldrei gert mér tilboð eða boðið mér nýjan samning."

„Mér finnst að félagið hafi ekki komið fram við mig eins og ég væri einn af fjölskyldunni. Stuðningsmennirnir gera það vissulega en félagið hefur ekki samið við mig. Þeir bera því ekki virðingu fyrir mér sem knattspyrnumanni."

Tevez á þó von á að hann verði áfram í Englandi. „Það er ekki rétt sem fram hefur komið að fjölskylda mín sé óánægð í Englandi. Fjögurra ára dóttir mín er að læra ensku og eiginkonu minni líður mjög vel hér. Við viljum því vera hér áfram."

„Sjálfur vil ég spila áfram í Englandi því þar er besta deild í heimi og hentar leikstíllinn hér mér vel."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×