Erlent

Yfir helmingur Bandaríkjamanna veldi annað starf

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Gothard.hu

Meirihluti vinnandi fólks í Bandaríkjunum segist myndu velja sér annað starf en það gegnir nú, væri það að velja sér starfsvettvang.

Það var atvinnumiðlunin Adecco Group sem ræddi við rúmlega 2.000 manns á vinnumarkaði, hvort tveggja launafólk og fólk með eigin rekstur. Upp úr kafinu kom að 56 prósent þeirra sem leitað var til játuðu fúslega að þeir myndu kjósa sér annan starfsferil en þann sem þeir eru nú staddir á, mættu þeir velja að nýju.

Útlitið er þó ekki alslæmt því tæp 80 prósent svöruðu því til að ánægja þeirra í starfi hefði að minnsta kosti ekki minnkað síðasta árið. Hinar óhjákvæmilegu slæmu fréttir eru svo þær að mikill meirihluti úrtaksins, heil 90 prósent, halda því fram að traust þeirra í garð yfirstjórnar síns fyrirtækis hafi minnkað í kjölfar hríðversnandi efnahagsástands í Bandaríkjunum.

Þá kváðust rúm 40 prósent svarenda hreinlega þakka fyrir að hafa vinnu miðað við stöðu mála og af þeim sem ekki vinna alla daga vikunnar kusu konur mun frekar að vinna fyrri hluta hennar en karlar þann síðari, sennilega tilvalin lausn fyrir hjón sem eiga í erjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×