Innlent

Barnaverndarmálum hefur ekki fjölgað - náði hámarki árið 2007

Ekkert bendir til að tilkynningum til barnaverndarnefnda hafi fjölgað í kjölfar kreppunnar umfram þá fjölgun tilkynninga sem verið hefur undanfarin ár.

Þetta er niðurstaða úttektar sem velferðarvaktin lét gera. Aftur á móti hefur tilkynningum til barnaverndarnefnda fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum.

Velferðarvaktin sem starfar á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins óskaði eftir úttektinni í kjölfar umræðu í fjölmiðlum um verulega aukningu tilkynninga til barnaverndarnefnda og ályktana í þá veru að aukningin tengdist áföllum í efnahagslífinu og vaxandi atvinnuleysi.

Fjölgun tilkynninga fyrri hluta ársins 2009 var talin gefa til kynna að vaxandi hópur barna byggi við alvarlegan vanda. Velferðarvaktin taldi ekki unnt að draga óyggjandi ályktanir um ástæður fjölgunarinnar og óskaði því eftir úttektinni sem unnin var af Rannsóknastofnun í barna og fjölskylduvernd.

Þar kemur fram að tilkynningar til barnaverndarnefndar voru 8201 á síðasta ári. Það er um tvö hundruð tilkynningum færri en bárust til nefndarinnar árið 2007.

Árið 1996 voru tilkynningar til barnaverndarnefndar 978.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×