Enski boltinn

Defoe var löglegur

Elvar Geir Magnússon skrifar

Enska knattspyrnusambandið hefur staðfest að Jermain Defoe hafi verið löglegur í seinni leik Tottenham og Burnley í enska deildabikarnum. Burnley sendi inn fyrirspurn þar sem félagið efaðist um að Defoe hafi mátt spila leikinn.

Defoe gat ekki spilað með Tottenham í fyrri leiknum þar sem félagaskipti hans frá Portsmouth voru ekki endanlega gengin í gegn. Forráðamenn Burnley töldu að þar sem Defoe hafi ekki mátt spila í fyrri leiknum hafi það sama átt að gilda um þann síðari. Það sé vegna þess að heildarúrslit leikjanna sem gilda.

Knattspyrnusambandið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem það staðfestir að Defoe hafi verið löglegur þar sem hann hafi ekki leikið með fyrrum félagi sínu, Portsmouth, í keppninni á þessari leiktíð. Þá hafi verið búið að innsigla kaupin á honum fyrir seinni leikinn gegn Burnley.

Það getur því ekkert komið í veg fyrir að það verði Tottenham sem mætir Manchester United í úrslitaleik deildabikarsins þann 1. mars.




Tengdar fréttir

Burnley efast um að Defoe hafi verið löglegur

Forráðamenn enska B-deildarliðsins Burnley hafa sent formlega fyrirspurn til knattspyrnuyfirvalda á Englandi þar sem efast er um að Jermain Defoe, leikmaður Tottenham, hafi verið heimilt að spila síðari leik liðanna í ensku deildabikarkeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×