Lífið

Tómlegt í plötubúðum

Halldór Gunnar er annar frá hægri. Lay Low vinnur ekki lengur í búðinni.
Halldór Gunnar er annar frá hægri. Lay Low vinnur ekki lengur í búðinni.

Ólöglegt niðurhal hefur sett strik í reikning plötubúða um allan heim. Stórum plötubúðum með mikið og breitt úrval hefur fækkað á meðan litlar sérhæfðar plötubúðir þrauka. Á Íslandi er Skífan í hlutverki risans á meðan búðir eins og Smekkleysa og 12 tónar eru litlu sérhæfðu búðirnar.

„Úrvalið skánaði mikið eftir að Sena tók Skífuna aftur yfir. Ástandið var satt að segja alveg hörmulegt á meðan Árdegi rak Skífubúðirnar. Það var enginn metnaður. Það tók til dæmis heilan mánuð fyrir nýjustu Metallica-plötuna að komast í rekkana hjá okkur þótt það væri mikill áhugi fyrir plötunni og við hefðum getað mokað henni út,“ segir starfsmaður í Skífunni. Hann segir allt á uppleið nú og Höskuldur Höskuldsson hjá Senu tekur undir það. „Þetta voru orðnar handónýtar búðir þegar við tókum við þeim um miðjan nóvember. Okkar fyrsta verkefni var að dæla plötum í búðirnar því það var hreinlega ekkert til í þeim.“

Fréttablaðið skoðaði úrvalið í síðustu viku og var hálfdapurlegt um að litast. Af plötunum á topp 10 í Bretlandi voru til þrír titlar, af topp 10 í Bandaríkjunum voru til fjórir titlar. Tímaritið Rolling Stone bjó til frægan lista yfir bestu plötur allra tíma og Skífan átti ekki nema þrjár af tíu efstu plötunum. Meistaraverk eins og London Calling með Clash, Revolver og Sgt. Pepper‘s með Bítlunum og Blonde on Blonde og Highway 61 Revisited með Bob Dylan voru ekki til. Staðan var þó aðeins betri með innlendar plötur. Bestu plötur Íslandssögunnar (samkvæmt kosningu í bókinni Eru ekki allir í stuði) voru allflestar til. En Hösk­uldur kann skýringar á þessu. „Það eru búin að vera jól og svo byrjuðu útsölurnar. Það er bara verið að fylla á rekkana núna.“

„Minn metnaður liggur í því að eiga allt það sem plötubúð þarf að eiga,“ segir Halldór Gunnar Pálsson, framkvæmdastjóri Skífunnar. Hann gerir sér grein fyrir því að Skífan er flaggskip íslenskra plötubúða. „Við erum náttúrlega bara með ákveðið mikið pláss, en það þarf að vera til góður „back-catalogue“ og líka eitthvað sem enginn þekkir svo fólk geti gramsað og uppgötvað eitthvað nýtt. Allar gömlu íslensku plöturnar eiga að vera til hjá okkur, það sem á annað borð er til hjá útgefendum. Sjálfur vil ég geta labbað inn í plötubúð og fengið Lifun, The Wall og Sumar á Sýrlandi og þannig skal það vera.“

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.