Enski boltinn

Guðjón: Dramatík í hverjum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe Alexandra.
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe Alexandra. Mynd/Daníel

Guðjón Þórðarson fagnaði sigri í sínum fyrsta deildarleik sem knattspyrnustjóri Crewe í dag og sagði hann í samtali við Vísi eftir leik að það hafi verið afar kærkominn sigur.

„Það voru mörg brosandi andlit allt í kringum mig eftir leikinn. Menn hafa ekki fengið mörg tækifæri til að brosa í vetur," sagði Guðjón. Crewe er þó enn í neðsta sæti ensku C-deildarinnar en nú aðeins fjórum stigum frá því að lyfta sér af fallsvæði deildarinnar.

Guðjón tók við Crewe í lok síðasta mánaðar og hefur tveimur deildarleikjum liðsins síðan þá verið frestað. Hann hefur þó stýrt liðinu í tveimur bikarleikjum gegn Millwall sem voru báðir mjög spennandi, rétt eins og þessi í dag. Crewe vann 3-2 sigur á Scunthorpe og kom sigurmarkið í blálok leiksins.

„Þetta er búin að vera svaka dramatík í öllum þessum leikjum," sagði hann og hló. „En núna féll þetta okkar megin."

„Það var ljóst fyrir þennan leik í dag að þetta yrði erfitt enda Scunthorpe með mjög gott lið. En við byrjuðum mjög vel og hefðum getað skorað 2-3 mörk á fyrsta korterinu. En svo fengum við á okkur nokkuð klaufalegt mark eftir aukaspyrnu og það virtist hreinlega drepa okkur."

„Ég reyndi að stappa stálið í menn í hálfleik og gerði eina breytingu sem skilaði sér. Flestir hefðu fyrirfram verið sáttir með jafntefli en sigurinn var einkar sætur."

Guðjón segir það ljóst að sínir menn séu miklir baráttuhundar. „Þeir vita að það er kominn nýr maður inn og ég er svo sem búinn að segja þeim hvaða línu ég mun taka í mínu starfi. Og ég mun fylgja henni og því verða menn að gera sér grein fyrir. Það er svo sem allt í lagi að sætta sig við mistök ef þau eru heiðarleg."

„Í þessum þremur leikjum sem ég hef verið með erum við búnir að skora sjö mörk en fá of mörg á okkur. Varnarleikurinn er okkar helsti höfuðverkur og mun ég reyna að styrkja hann, annað hvort með því að fá miðvörð eða markvörð í liðið. En þessi byrjun hefur verið framar vonum og vonandi að það gefi strákunum þá trú á verkefninu sem þarf."

Hann neitar því ekki að það sé gaman að vera kominn aftur í heim enska boltans eftir stopp á Íslandi þar sem hann þjálfaði ÍA.

„Þetta er þó ekkert líkt því sem við þekkjum heima. Þetta eru tveir algerlega ólíkir heimar. Crewe er vissulega lítill klúbbur en það eru mörg stærri félög í deildinni eins og Leeds."

Um fátt annað hefur verið rætt í knattspyrnuheiminum undanfarna daga en tilboð Manchester City í Brasilíumanninn Kaka hjá AC Milan og segir Guðjón að þeir sem hann hafi talað við eru fyrst og fremst hneykslaðir á þeim fregnum að City sé tilbúið að borga AC Milan 107 milljónir punda fyrir hann.

„Crewe þykist vera félag sem rekur sig afar skynsamlega. Félagið á til að mynda alltaf tvær milljónir punda í varasjóð. En ef ég fengi 107 milljónir til að eyða myndi það ekki taka mig nema þrjú ár að gera Crewe að úrvalsdeildarliði."

„En það eru margir hneykslaðir á þessu enda myndi þetta setja mikið ójafnvægi í íþróttina," sagði Guðjón að lokum og benti á að sínir stjórnarmenn í Crewe væru með sína fætur pikkfasta á jörðinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×