Innlent

Mun fleiri fasteignir seldar á nauðungarsölu

Höskuldur Kári Schram skrifar
Tæplega helmingi fleiri fasteignir hafa verið seldar á nauðungarsölu í Reykjavík það sem af er þessu ári miðað við sama tímabil í fyrra. Búist er við holskeflu uppboða í nóvember þegar lög um frestun á nauðungarsölu renna út.

Tæplega 130 fasteignir voru seldar á nauðungarsölu í Reykjavík á fyrstu átta mánuðum þessa árs samkvæmt tölum sýslumannsembættisins í Reykjavík. Á sama tímabili í fyrra voru þær 78 talsins.

Í vor tóku gildi lög sem gilda út októbermánuð og heimila frestun á nauðungarsölu fasteigna. Fjölmörgum nauðungarsölum hefur verið frestað þangað til í nóvember og er búist við holskeflu uppboða þegar lögin renna út - enda hafa engin nauðungaruppboð verið afturkölluð.

Hjá Sýslumanninum í Reykjavík eru nú fyrirliggjandi tæplega 1.400 nauðungarbeiðnir vegna fasteigna.

Sömu sögu er að segja í Hafnarfirði en þar hefur fjöldi nauðungaruppboða á fasteignum tvöfaldast á milli ára. Þar hefur einnig mörgum uppboðum verið frestað fram í nóvember og því búist við mikilli fjölgun mála þegar fresturinn rennur út.

Nauðungarsala á bifreiðum virðist vera svipuð og í fyrra. Það sem af er þessu ári hafa 248 bifreiðar verið seldar nauðungarsölu í Reykjavík og 15 í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×