Innlent

Getur ekki greitt skuldirnar að sinni

Magnús Reynir.
Magnús Reynir.

Fjárhagsstaða Frjálslynda flokksins er slæm og þarf flokkurinn að semja við lánardrottna um greiðslufrest á skuldum. Flokkurinn náði ekki því 2,5 prósenta marki í kosningunum á laugardag sem tryggir framboðum ríkisframlög. Magnús Reynir Guðmundsson, framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, telur að þar með hafi flokkurinn orðið af 12-14 milljóna króna árlegum ríkisframlögum út kjörtímabilið.

„Þetta var tvöfalt áfall," segir Magnús Reynir og vísar til þess að annars vegar hafi Guðjón A. Kristjánsson formaður fallið út af þingi og hins vegar hafi 2,5 prósenta markið ekki náðst.

Hann vill ekki láta uppi hve mikið flokkurinn skuldar; stofnanir flokksins eigi eftir að fara yfir málið. Skuldirnar séu þó ekki stórvægilegar og fyrst og fremst vegna kostnaðar sem féll til í kosningabaráttunni. „Við fórum gætilega og eyddum ekki meiru en við töldum brýna nauðsyn á." Ljóst sé þó að ekki sé hægt að greiða skuldirnar að sinni, um þær verði að semja. Magnús kveðst bjartsýnn á að þeir sem eigi peninga inni hjá flokknum sýni stöðunni skilning og reyni að koma til móts hann.

Spurður hvort mögulegt sé að Frjálslyndi flokkurinn fari í gjaldþrot segist Magnús ekki telja líkur á því.

Guðjón A. Kristjánsson lánaði Frjálslynda flokknum fjórar milljónir fyrir nokkrum árum. Magnús Reynir segir að gert hafi verið upp við hann að fullu.- bþs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×