Innlent

Makríllinn enn á miðunum

Ingunn AK Hafrannsóknastofnun rannsakar hegðun makrílsins á Íslandsmiðum með aðstoð útgerðanna.
Ingunn AK Hafrannsóknastofnun rannsakar hegðun makrílsins á Íslandsmiðum með aðstoð útgerðanna.

Fjögur íslensk tog- og nótaskip hafa undanfarna daga tekið þátt í makrílrannsóknum fyrir Austur- og Suðausturlandi sem skipulagðar eru af Hafrannsóknastofnun. Rannsóknin er hluti af því að kortleggja breytt hegðunar­mynstur makrílsins við Ísland.

Meðal skipanna er Ingunn AK, sem HB Grandi gerir út, og lauk skipið yfirferð sinni í nótt sem leið að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda. Að sögn Vilhjálms varð vart við makríl auk þess sem nokkur tonn af blandaðri síld komu upp en þar var um að ræða íslenska sumargotssíld og norsk-íslenska vorgotssíld sem héldu sig á sömu togslóðinni.

Markmiðið með rannsókninni er að fylgjast með því hve lengi makríll dvelur í íslenskri lögsögu á haustin og fylgjast með gönguleiðum hans þegar hann dregur sig til baka á vetur­setustöðvar í Norður­sjó og norðan og vestan Bretlandseyja. Svæðið sem valið var til rannsóknanna nær frá landgrunninu fyrir Austur- og Suðausturlandi að mörkum landhelginnar þar sem líklegt er talið að makríllinn gangi er hann hverfur af Íslandsmiðum. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×