Enski boltinn

United tapaði fyrir Derby

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Steve Davies eigast hér við í leiknum.
Cristiano Ronaldo og Steve Davies eigast hér við í leiknum. Nordic Photos / Getty Images
B-deildarlið Derby gerði sér lítið fyrir og vann 1-0 sigur á Englandsmeisturum Manchester United í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í dag.

Það var Kris Commons sem skoraði eina mark leiksins á 30. mínútu með glæsilegu langskoti sem Tomasz Kuszczak átti ekki möguleika á að verja.

Forystan var verðskulduð þar sem Derby átti fleiri færi í fyrri hálfleik.

Það var minna um opin færi í þeim síðari en Cristiano Ronaldo, sem kom inn á sem varamaður, átti gott skot úr aukaspyrnu sem fór hárfínt fram hjá marki Derby.

Skömmu síðar fékk hins vegar Rob Hulse besta færi síðari hálfleiksins. Commons átti frábæran sprett upp hægri kantinn og lét vaða að marki en Kuszczak varði. Boltinn fór beint fyrir fætur Hulse sem stýrði boltanum yfir markið af stuttu færi.

Wayne Rooney og Michael Carrick komu einnig inn á sem varamenn í kvöld en allt kom fyrir ekki. Nemanja Vidic var fyrirliði United í leiknum sem stillti upp nokkuð sterku liði en meðal þeirra sem byrjuðu inn á voru þeir Rafael, John O'Shea, Paul Scholes, Anderson, Carlos Tevez og Nani.

Liðin mætast á nýjan leik á Old Trafford þann 20. janúar næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×