Erlent

Sex létust í eldsvoða í Stokkhólmi

Að minnsta kosti sex létust í eldsvoða sem braust út í íbúðarblokk í Rinkeby í vesturhluta Stokkhólms í nótt. Fimm þeirra sem létust voru börn og ungmenni.

Tilkynnt var um eldinn laust fyrir miðnætti en tólf íbúðir eru í húsinu sem staðsett er á Kuddbygränd um 15 kílómetra vestur af Stokkhólmi. Um fimmtíu manns voru í húsinu þegar slökkvilið kom á vettvang en eldurinn átti upptök sín á fyrstu hæð um klukkan tíu í gærkvöldi.

Íbúar á svæðinu sögðu slökkvilið og sjúkrabíla óvenju lengi á slysstað eftir að kallað var eftir aðstoð. Slökkviliðsmenn sem komu á vettvang sögðu að íbúðin þar sem eldurinn kom upp hafi þegar verið alelda. Eldurinn var einangraður við íbúðina en mikill reykur barst um húsið sem er fimm hæða.

Tveir liggja alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi en talið er að allir þeir sem létust hafi látist af völdum reykeitrunar.

Lögreglumaður sagði í samtali við sænska fjölmiðla í morgun að fimm þeirra sem létust hafi flestir verið börn og ungmenni fá aldrinum níu til nítján ára. Þá sagði hann að flesti benti til þess að fjórir þeirra látnu hafi látist eftir að hafa fests í lyftu hússins. Aðrir fundust í stigagangi, þeirra á meðal kona á fertugsaldri.

Eldsupptök eru ókunn en sænska útvarpið sagði í morgun að ekki væri grunur um íkveikju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×