Erlent

Hitamet falla og gróðureldar geisa í Evrópu og víðar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjórar hitabylgjur hafa gengið yfir Bretlandseyjar í sumar.
Fjórar hitabylgjur hafa gengið yfir Bretlandseyjar í sumar. Getty/Ben Montgomery

Hitamet falla nú hvert af öðru í Evrópu, meðal annars í suðurhluta Frakklands og Króatíu. Á sama tíma geisa gróðureldar víða um álfuna og hafa farið yfir 4.000 ferkílómetra.

Í suðvesturhluta Frakklands mældist hitinn á yfir 40 prósent veðurstöðva yfir 40 gráður. Þá er vert að geta þess að af um 50 hitabylgjum sem hafa gengið yfir Frakkland frá árinu 1947, hefur helmingur átt sér stað á síðustu fimmtán árum.

Hitinn í Evrópu hefur valdið þurrkum, sem hafa greitt fyrir útbreiðslu gróðurelda. Þeir hafa nú farið yfir 87 prósent stærra svæði en meðaltalið síðustu tvo áratugi. 

Fjögurra ára drengur lést úr hita á Ítalíu, þar sem sextán af 27 stærstu borgunum sættu viðvörunum og þá lést maður í gróðureldum á Spáni. Þúsundir deyja árlega í Evrópu sökum hita.

Samkvæmt Alþjóðaveðurfræðistofnuninni magna gróðureldar og slæm loftgæði áhrif hitabylgja. Hún hefur vakið athygli á því að hitinn í fyrstu viku ágúst hafi farið yfir 42 gráður, og sums staðar yfir 45 gráður, víða í Asíu, í norður Afríku, í suðurhluta Pakistan og í suðvesturhluta Bandaríkjanna.

„Svona líta loftslagsbreytingar út. Og þetta mun bara versna,“ hefur Guardian eftir Bob Ward, sérfræðingi hjá Grantham Research Institute.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×