Lífið

Urðu veikar af þorramat

jóhannes viðar bjarnason Þátttakendur í Britain´s Next Top Model litu inn á Fjörukrána í vetur.fréttablaðið/pjetur
jóhannes viðar bjarnason Þátttakendur í Britain´s Next Top Model litu inn á Fjörukrána í vetur.fréttablaðið/pjetur

„Þær voru ekkert sérstaklega hrifnar af hákarlinum,“ segir Jökull Þorri Samper, starfsmaður Fjörukráarinnar.

Þáttur í raunveruleikaseríunni Britain"s Next Top Model, sem var tekinn upp á Íslandi í vetur, var nýverið frumsýndur í Bretlandi. Í honum fóru fyrirsæturnar á Fjörukrána þar sem þær áttu að borða þorramat fyrir framan myndavélarnar og segja á sama tíma:

„Hollt og gott og best í heimi“ með bros á vör. Ekki gekk allt sem skyldi og köstuðu sumar þeirra upp í klósettið, enda maturinn afar framandi í þeirra augum. „Þetta er ekki beint það sem þær borða mest,“ segir Jökull.

„Einhverjar af þeim eru grænmetisætur og þær táruðust bara þegar þær sáu þetta. En þær voru mjög rólegar og fínar en það var smá dramatík í kringum þær. Ég held samt að mikið af því hafi verið hálfgert leikrit fyrir myndavélarnar.“

Jökull á enn eftir að sjá þáttinn og hlakkar til að sjá útkomuna. „Britain"s Next Top Model er ekki beint það sem ég horfi á í sjónvarpinu en það væri allt í lagi að sjá hvernig þetta kemur út.“

Jóhannes Viðar Bjarnason, eigandi Fjörukráarinnar, segir að þrátt fyrir óbragðið sem maturinn skildi eftir sig hjá fyrirsætunum hafi þær verið ánægðar með móttökurnar sem þær fengu.

„Þær voru bara mjög ánægðar með veru sína hérna.“

Stúlkurnar snæddu einnig kvöldverð í Perlunni þar sem einhverjar kvörtuðu yfir súpunni. Svo virðist því sem íslenskur matur hafi engan veginn höfðað til þeirra, þrátt fyrir að breskur matur hafi seint verið talinn sá gómsætasti í heimi. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.