Innlent

Læknar kvilla mannfólksins

Aðalbjörg og smyrslin. Stofnandi Villimeyjar segir gott að gera út frá Vestfjörðum en hið opinbera megi gera fyrirtækjarekstur utan höfuðborgarsvæðisins auðveldari. Fréttablaðið/úr einkasafni
Aðalbjörg og smyrslin. Stofnandi Villimeyjar segir gott að gera út frá Vestfjörðum en hið opinbera megi gera fyrirtækjarekstur utan höfuðborgarsvæðisins auðveldari. Fréttablaðið/úr einkasafni

„Ég hef verið mjög upptekin en spái í að hafa opið hús á laugardag,“ segir Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Villimey á Tálknafirði. Aðalbjörg er jafnframt einn af fjölmörgum talsmönnum Alþjóðlegu athafnavikunnar.

Hún hefur frá 1990 safnað jurtum sem vaxa við Tálknafjörð og Arnarfjörð og notað þær í lækningaskyni við ýmsum kvillum mannfólksins.

Mágkona Aðalbjargar hvatti hana til að gera eitthvað úr þessum kraftmiklu kremum og leyfa öðrum að njóta. Í dag eru fastir starfsmenn yfirleitt þrír eða fjórir og hefur Aðalbjörg nóg fyrir stafni, að eigin sögn.

Villimey þróar og framleiðir náttúrusmyrsli úr jurtum af sunnanverðum Vestfjörðum og eru þau með alþjóðlega lífræna vottun. Engin kemísk efni eru í smyrslunum.

„Ég er á æðislegum stað. Náttúruvísindastofnun hefur rannsakað loftmengun á Íslandi og var útkoman að Vestfirðir voru með hreinasta loftið,“ segir Aðalbjörg en bætir við að hið opinbera mætti gera fyrirtækjum á landsbyggðinni auðveldara fyrir hvað varðar flutningsgjöldin. „Þau eru alltof há og gera fyrirtækjum á landsbyggðinni erfitt fyrir,“ segir hún. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×