Innlent

Kostnaður einkaspítalans fellur ekki á skattborgara

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Kostnaður við bráðaþjónustu myndi aldrei falla á íslenska ríkið segir hjúkrunarfræðingur hjá Salt sem hyggur á samstarf með Mayo Clinic í Reykjanesbæ. Hægt væri að hefja starfsemina í lok ársins.

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, sagðist í fréttum Stöðvar 2 í gær gjalda varhug við hugmyndir Róberts Wessman um að fyrirtæki hans Salt Investments flytji sjúklinga hingað lands í samtarfi við bandarísku heilbrigðisstofnunina Mayo Clinic.

Ögmundur vildi fá að vita hver tilkostnaðurinn yrði við það og hvort að íslenska ríkið ætti að vera bakhjarl í neyð. María Bragadóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Salt, segir varnagla heilbrigðisráðherra skiljanlega en þetta sé spurning um útfærsluatriði. Það kæmi þó ekki til þess að íslenska ríkið myndi sjá um kostnaðinn ef einhver yrði.

María segir að gera megi ráð fyrir að einn af hverjum 300 sjúklingum sem gangast undir liðskiptiaðgerð þurfi á bráðaþjónustu að halda. Þá hefur enginn sjúklingur sem hefur gengist undir offitumeðferð á Landspítalanum frá árinu 2004 þurft á slíkri þjónustu að halda.

Hún bendir á að venjan sé að gera samninga við háskólasjúkrahús um bráðaþjónustu en kostnaðurinn er greiddur af tryggingu einkaaðilans. María segir að verkefnið sé langt á veg komið og í raun sé hægt að hefjast handa strax í næstu viku og þá væri hægt að hefja starfsemina fyrir lok þessa árs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×