Innlent

Fjörutíu lagðir inn vegna svínaflensu

Farsóttanefnd Landspítalans hvetur fólk til að fara ekki í heimsóknir á spítalann. Þar sé fólk með inflúensu en einnig aðrir sem séu veikir af öðrum orsökum. Lasnir ættingjar eigi ekkert erindi inn á spítalann, segir yfirmaður smitsjúkdómadeildar.
Farsóttanefnd Landspítalans hvetur fólk til að fara ekki í heimsóknir á spítalann. Þar sé fólk með inflúensu en einnig aðrir sem séu veikir af öðrum orsökum. Lasnir ættingjar eigi ekkert erindi inn á spítalann, segir yfirmaður smitsjúkdómadeildar.

Enn fjölgaði sjúklingum á Landspítala í gær vegna svínaflensu. Þeir voru 33 talsins, þar af sex á gjörgæslu. Sjö nýir voru innlagðir og fjórir útskrifaðir. Þá höfðu fimm einstaklingar verið lagðir inn á sjúkrahúsið á Akureyri af sömu ástæðu og einn á Blönduósi.

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá sóttvarnalækni kemur fram að fjöldi inflúensutilfella þrefaldaðist í síðustu viku miðað við vikuna þar á undan. Fólk á öllum aldri greinist með sjúkdóminn, flestir á aldrinum 15 til 19 ára. Frá lokum júní til 18. október bárust samtals 4246 tilkynningar um inflúensu­lík einkenni eða staðfesta svínaflensu samkvæmt skráningum lækna í rafrænar sjúkraskrár. Frá 23. september hafa 80 manns verið lagðir inn á Landspítala vegna flensunnar.

„Spítalinn er undir miklu álagi þótt ekki sé komið að þolmörkum," segir Már Kristjánsson, yfirmaður smitsjúkdómadeildar Landspítalans. „En það þarf að huga að því sem gerist á næstu dögum og vikum. Sjúklingum með flensu hefur fjölgað dag frá degi að meðaltali. Ákvarðanataka ræðst af þróuninni á næstu dögum og jafnvel vikum."

Hann segir að sú hugmynd að hafa alla flensusjúklinga á einum gangi hafi verið rædd en engin ákvörðun þar að lútandi tekin enn.

„Við erum með ákveðna viðbragðsáætlun," segir hann. „Það segir sig sjálft að þegar herðir á þessum þætti í starfseminni þá getum við ekki sinnt öllu öðru sem við gerum venjulega. Mörgu af því er hægt að stjórna, til að mynda valkvæðri starfsemi. Okkur finnst ekki ástæða til þess í dag að breyta starfseminni með því að sinna einungis bráðum, aðkallandi verkefnum, en það gæti komið til þess á næstu dögum. Það ræðst af því hvernig málin þróast."

Már segir að farsóttanefnd Landspítalans hvetji fólk til að fara ekki í heimsóknir á spítalann. Þar sé fólk með inflúensu en einnig aðrir sem séu veikir af öðrum orsökum. Lasnir ættingjar eigi ekkert erindi inn á spítalann.

„Í rauninni er umferð fólks ekki af hinu góða á þessari stundu," segir hann, en segir ekki í umræðunni að banna allar heimsóknir á spítalann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×