Innlent

Hlaupið hátt í 200 kílómetra

Ágúst Kvaran hljóp 91 kílómetra í Sahara-eyðimörkinni í fyrradag á tæpum fimmtán klukkustundum. Myndin er frá æfingu hér á landi fyrir hlaupið.
Ágúst Kvaran hljóp 91 kílómetra í Sahara-eyðimörkinni í fyrradag á tæpum fimmtán klukkustundum. Myndin er frá æfingu hér á landi fyrir hlaupið.

Ofurhlauparanum Ágústi Kvaran gengur vel í eyðimerkurmaraþoninu í Sahara. Hann er búinn að ljúka tveimur 30-40 kílómetra hlaupum og í fyrradag var lengsti hluti hlaupsins, rúmlega tvöfalt maraþonhlaup. Hlaupið átti að vera upp á 80,5 kílómetra en var lengt í 91 kílómetra. Hann tók þessa vegalengd á 14 klukkustundum og þremur korterum og er í 128. sæti í hlaupinu eftir þrjá fyrstu dagana.

Ólöf Þorsteinsdóttir, eiginkona Ágústs, segir að Ágúst láti vel af sér. Landslagið minni á íslensk fjöll nema sandöldurnar, þær séu hátíð miðað við sandinn við Eyrarbakka þar sem Ágúst hefur verið að æfa fyrir eyðimerkurhlaupið. Hitinn hafi ekki farið yfir 30 stig.

Ólöf segir að hlaupið á þriðjudaginn hafi verið aðeins erfiðara en hlaupið á mánudaginn þar sem Ágúst hafi farið aðeins of hratt af stað og lent með hörðum keppendum. Mestallur hluti leiðarinnar hafi verið á sléttlendi en í sandöldunum njóti hann sín, honum finnist „alveg frábært að fara hægt upp öldurnar og láta sig svo bruna niður. Han hefur alltaf verið nokkuð sterkur í niðurhlaupunum,“ segir hún.

Ólöf segir að Ágúst drekki kerfis­bundið til skiptis vatn og orkudrykk og taki saltpillur samviskusamlega. Hann deili tjaldi með Dönum, það sé rúmt á þeim og mikil stemning í tjaldbúðunum. Eldamennskan gangi vel.

Hlaupaleið er ekki gefin upp fyrr en skömmu fyrir hlaupið. Mikil óvissa hefur verið um leiðir og talsvert um breytingar á síðustu stundu vegna breytinga í landslagi af völdum vatns. - ghs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×