Innlent

Belginn talinn hafa náð að losa handjárnin

Gilles Romain Chaterine Classens
Gilles Romain Chaterine Classens

Gilles Romain Chaterine Classens, 21 árs gamall Belgi sem slapp frá lögreglunni á Suðurnesjum í gær er talinn hafa náð að losa handjárn sem hann var í þegar lögregla flutti hann á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í myndatöku. Belginn var handtekinn í Leifsstöð grunaður um að hafa fíkniefni innvortis. Hann játaði brot sitt en slapp þegar flytja átti hann í svokallaða gegnumlýsingu. Gilles var á flótta í tólf tíma en var síðan handtekinn í morgun.

Það voru menn frá sérsveit Ríkislögreglustjóra sem urðu varir við mann í miðbæ Reykjanesbæjar um sex leytið í morgun sem svaraði til lýsingar á Belganum. Veittu þeir honum eftirför en hann reyndi að komast undan á hlaupum. Lögreglumennirnir hlupu hann síðan uppi og handtóku.

Guðmundur Bragason lögreglufulltrúi segir að nú fari í gang innflutningsrannsókn en hann hefur þegar játað að hafa haft fíkniefni innvortis eins og fyrr segir.

Aðspurður hvort grunur leiki á að Belginn hafi náð að skila af sér einhverjum efnum á þeim tólf tímum sem hann var laus segist Guðmundur ekkert vita um það.

„Við sitjum bara með krosslagaða fingur og vonum það besta. Þetta fer í hefðbundinn burðardýrafarveg og vonandi liggur fyrir niðurstaða úr því áður en langt um líður," segir Guðmundur.

Aðspurður um flótta Belgans segir Guðmundur að margt bendi til þess að hann hafi náð að losa annað handjárnið sem hann var í þegar verið var að flytja hann í lögreglubifreið. Hann náði síðan að komast á brott á hlaupum þegar út úr bifreiðinni var komið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×