Íslenski boltinn

Sérfræðingarnir völdu Atla Guðnason bestan í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason er besti leikmaður sumarsins að mari sérfræðinga Pepsi-markanna.
Atli Guðnason er besti leikmaður sumarsins að mari sérfræðinga Pepsi-markanna. Mynd/Arnþór

Sérfræðingar Stöðvar 2 Sport í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, Tómas Ingi Tómasson og Magnús Gylfason, völdu Atla Guðnason, leikmann Íslandsmeistara FH, besta leikmann tímabilsins uppgjörsþætti Pepsi-markanna í gær. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var valinn besti þjálfarinn og Alfreð Finnbogason úr Breiðabliki var valinn besti ungi leikmaðurinn.

Sérfræðingarnir sögðust hafa verið alveg sammála um að velja Atla Guðnason og að fátt hafi truflað þá í þessu vali. Þeir sögðu að margir hafi verið að standa sig vel en að engin spurning hafi verið að hann hafi staðið upp úr. Atli Guðnason skoraði 11 mörk og lagði upp önnur 11 mörk í 20 leikjum sínum með FH í sumar.

Sérfræðingarnir nefndu einnig fjóra aðra leikmenn sem þeir sögðu hafa komið til greina en það voru FH-ingarnir Atli Viðar Björnsson og Matthías Vilhjálmsson og KR-ingarnir Björgólfur Takefusa og Bjarni Guðjónsson.

Sérfræðingarnir völdu einnig lið ársins og var það mjög sókndjarft, spilaði leikkerfið 3-4-3 með mjög sóknarhugsandi menn á vængjunum. Liðið þeirra Tómasar Inga og Magnúsar er hér fyrir neðan:

Lið ársins í Pepsi-deild karla:

Markvörður: Fjalar Þorgeirsson, Fylki

Hægri bakvörður: Andrés Már Jóhannesson, Fylki

Miðvörður: Daníel Laxdal, Stjörnunni

Vinstri bakvörður: Jordao Diogo, KR

Hægri vængmaður: Matthías Vilhjálmsson, FH

Miðjumaður: Bjarni Guðjónsson, KR

Miðjumaður: Davíð Þór Viðarsson, FH

Vinstri vængmaður: Atli Guðnason, FH

Framherji: Atli Viðar Björnsson, FH

Framherji: Alfreð Finnbogason, Breiðabliki

Framherji: Björgólfur Takefusa, KR






Fleiri fréttir

Sjá meira


×