Lífið

Hátíðir í haust

kvikmyndir Frá Nordisk Panorama fyrir fimm árum. Bíó í sundi.
kvikmyndir Frá Nordisk Panorama fyrir fimm árum. Bíó í sundi.

Kvikmyndahátíðir haustsins verða með fjörlegra móti og er ekkert lát á þótt þrengist hagur múgamanna:

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík verður haldin í sjötta sinn dagana 17.–27. september. Sýndar verða hátt í 100 kvikmyndir, heimildarmyndir jafnt sem leiknar, nýjar og framsæknar kvikmyndir í bland við verðlaunamyndir frá kvikmyndahátíðum víða um heim. Þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir kvikmynda á Alþjóðlega kvikmyndahátíð í ár en umsóknarfrestur rennur út 15. júlí næstkomandi. Athygli er vakin á því að hátíðin óskar sérstaklega eftir íslenskum stutt- og heimildarmyndum en tekið er við kvikmyndum í fullri lengd frá öllum heimshornum.

Umsóknareyðublað og nánari upplýsingar um hátíðina má finna á nýrri og endurbættri heimasíðu: www.riff.is.

Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefur vaxið ótrúlega síðustu ár. Ríflega 20.000 Íslendingar sóttu hana á síðasta ári auk hundraða alþjóðlegra gesta.

Hin hátíðin sem skellur á hvítum tjöldum Reykjavíkur í haust er Nordisk Panorama: fimm borga hátíð norrænna kvikmyndagerðarmanna með heimildar- og stuttmyndum. Hún er komin aftur til Reykjavíkur og verður haldin dagana 25.–30. september. Er þetta í tuttugasta sinn sem hátíð er haldin.

Hátíðin býður upp á einstakt tækifæri til þess að taka púlsinn á norrænni kvikmyndgerð og vera fyrstur til að sjá nýjar myndir eftir þekkta leikstjóra og óuppgötvað hæfileikafólk. Fjöldi alþjóðlegra þekktra norrænna leikstjóra hefur þreytt frumraun sína á Nordisk

Panorama og er hátíðin mikilvægur stökkpallur fyrir unga kvikmyndagerðarmenn.

Aðalsýningar Nordisk Panorama eru hluti af efnisskrá keppninnar sem fram fer á hátíðinni. Sú dagskrá felur í sér sýningu á um það bil 80 nýjum stutt- og heimildarmyndum og er stór hluti þeirra mynda sýndur í fyrsta sinn á hátíðinni alþjóðlegum áhorfendum. Keppt er um þrenn verðlaun, besta norræna stuttmyndin, besta norræna heimildamyndin og nýjar norrænar raddir. Skráningu mynda á hátíðina er nú lokið en dagskráin er ekki tilbúin.

Samsíða hátíðinni eru tveir mikilvægir og spennandi atburðir skipulagðir. Þeir eru Fjármögnunarmessan og Markaðurinn en á þeim gefst einstakt tækifæri fyrir kvikmyndagerðarmenn að kynna nýjar hugmyndir í þróun, dreifa myndum sínum og fjármagna ný verkefni.

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.