Innlent

Leysa einungis úr ágreiningsmálum

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Persónuvernd hefur hafnað því að úrskurða um lögmæti kortavefsjár sem opin var á vefsíðu Kópavogsbæjar. Ástæðan er sú að vefsjánni var lokað eftir að íbúi í bænum kærði hana til Persónuverndar.

„Forsenda þess að Persónuvernd taki málið til efnislegrar afgreiðslu er að fyrir liggi ágreiningur. Þar sem ekki fæst séð að ágreiningur sé lengur til staðar mun Persónuvernd ekki aðhafast frekar í málinu nema frá yður berist sérsök, rökstudd beiðni þar að lútandi," segir í svari Persónuverndar til íbúans sem kærði vefsjána.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu 30. október síðastliðinn taldi kærandinn meðal annars að teikningar af híbýlum manna á vefsjánni gætu auðveldað innbrotsþjófum iðju sína. Í bréfi til Persónuverndar tók Þórður Clausen Þórðarson bæjarlögmaður undir sjónarmið íbúans.

„Enginn vafi er á því að hægt er að nota þessar upplýsingar í vafasömum tilgangi og engin ástæða til þess að þær séu aðgengilegar öllum," sagði bæjarlögmaður sem kvaðst enn fremur telja vafa leika á að vefsjáin stæðist lög.

„Þetta bréf svarar ekki spurningum okkar um birtingu upplýsinganna, en við lokuðum fyrir aðgang að vefnum þangað til afstaða Persónuverndar lægi fyrir. Við munum að sjálfsögðu ræða við Persónuvernd um málið og svo að líkindum opna fyrir vefinn aftur í einhverri mynd," segir Þór Jónsson, upplýsingafulltrúi hjá Kópavogsbæ. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×