Enski boltinn

16,7 milljarðar fyrir Kaka?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kaka í leik með AC Milan.
Kaka í leik með AC Milan. Nordic Photos / AFP

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Manchester City sé reiðubúið að reiða fram hvaða upphæð sem er til að tryggja sér þjónustu Brasilíumannsins Kaka sem leikur með AC Milan.

Samkvæmt fréttastofu BBC er City reiðubúið að leggja fram tilboð upp á 100 milljón evrur eða 16,7 milljarða króna. Enn fremur er því haldið fram að Kaka verði boðin hálf milljón punda í vikulaun eða 92 milljónir króna. Yrði hann þá langlaunahæsti knattspyrnumaður í heimi.

Til samanburðar má nefna að það myndi ekki duga að fá allar tölur réttar vikulega í Víkingalótti og laugardagslottói til að ná upp í samskonar upphæð.

Til þessa hefur City ekki verið reiðubúið að tjá sig um fréttirnar en það er fullyrt að sendinefnd frá félaginu sé nú statt í Mílanó til að funda með forráðamönnum AC Milan.

Kaka gekk til liðs við AC Milan frá Sao Paulo árið 2003 og hefur síðan þá orðið ítalskur deildarmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari félagsliða með liðinu. Hann hlaut einnig gullskóinn árið 2007 og var þá einnig kjörinn knattspyrnumaður ársins af FIFA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×