Íslenski boltinn

Ólafur: Vantar bara að við klárum færin betur

Ómar Þorgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson.
Ólafur Þórðarson.

Ólafur Þórðarson þjálfari Fylkis var eðlilega sáttur í leikslok í dag eftir sannfærandi 1-3 sigur Fylkis gegn Fjölni á Fjölnisvelli.

Fylkismenn voru mun beittari en heimamenn og stigin þrjú voru því fyllilega verðskulduð.

„Ég er bara mjög ánægður með sigurinn. Hægt og rólega erum við að bæta okkur á flestum vígstöðvum og það vantar bara að klára færin okkar betur. Hins vegar var varnarleikurinn okkar fínn. Fjölnismenn skoruðu þetta eina mark með langskoti og að öðru leyti fengu þeir varla færi í leiknum. Við getum því verið þokkalega sáttir. Við hefðum samt átt að klára leikinn í fyrri hálfleik, því við fengum alveg færin til þess," segir Ólafur.

Fylkismenn skutust með sigrinum í annað sæti Pepsi-deildarinnar en Ólafur segir mikilvægt að hlaupa ekki fram úr sjálfum sér og segir liðið enn eiga eftir að bæta marga þætti í leik sínum.

„Eins og ég hef sagt áður þá er þetta bara tímavinna og við búum ekki til mikla reynslu á einu sumri. Það er nokkuð ljóst. Við verðum bara að hafa þolinmæði," segir Ólafur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×