Enski boltinn

Aftur frestað hjá Crewe - Guðjón óhress

Mynd/Eiríkur

Guðjón Þórðarson var ekki sáttur þegar ákveðið var að fresta leik hans manna í Crewe gegn Southend meira en sólarhring áður en leikurinn átti að fara fram.

Leiknum á Roots Hall vellinum var frestað eftir að vallarskilyrði þóttu ekki nægilega góð við skoðun í hádeginu í dag. Þetta var Guðjóni Þórðarsyni á móti skapi ef marka má ummæli hans við BBC.

"Ég vil að þessi leikur fari fram og ég vil fara að hala inn stig. Kannski eru þeir meira með hugann við að spila við Chelsea í bikarnum en okkur í deildinni," sagði Guðjón.

Þetta er annar leikurinn sem frestað er hjá Crewe á síðustu fimm dögum, en deildarleikur liðsins gegn Bristol Rovers sem fara átti fram á þriðjudagskvöldið var blásinn af vegna frosts á vellinum.

"Þetta er óheppilegt. Að mínu mati átti að skoða völlinn síðar um daginn. Þeir hefðu átt að skoða hann um þrjúleytið, því þá er allt annað ástand á vellinum vegna sólarinnar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×