Innlent

Ég myrti móður mína hlaut Gyllta lundann á RIFF: Djúpt samband mæðgina

Kanadíska kvikmyndin Ég myrti móður mína (J"ai Tué Ma Mère), frumraun leikstjórans Xaviers Dolan, hlaut Gyllta lundann á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík (RIFF) sem lauk í gær.

Myndin, sem leikstjórinn byggir á eigin ævi, fjallar um samband móður og samkynhneigðs sonar hennar.

Í umsögn dómnefndar segir að persónusköpun hafi verið afar sannfærandi og leikstjóranum tekist að setja samband mæðginanna í stórt samhengi. Forvitnilegt verði að fylgjast með ferli leikstjórans í framtíðinni.

Formaður dómnefndar var danska leikkonan Iben Hjejle, sem þekktust er hér á landi fyrir hlutverk sín í sjónvarpþáttunum Klovn og Anna Pihl. Auk hennar sátu í nefndinni Elísabet Ronaldsdóttir kvikmyndaklippari, Sitora Alieva sem hefur meðal annars gegnt stöðu framkvæmdastjóra Opnu rússnesku kvikmyndahátíðar­innar Kinotavr, austurríski leikstjórinn Jessica Hausner og leikkonan Elva Ósk Ólafsdóttir.

Metaðsókn var á kvikmynda­hátíðina í ár. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×