Innlent

Gekk berserksgang gegn lögreglu

Manninum er gefið að sök að hafa ráðist bæði á lögreglubíla og lögreglumenn.
Manninum er gefið að sök að hafa ráðist bæði á lögreglubíla og lögreglumenn.
Ríkissaksóknari hefur ákært mann á þrítugsaldri fyrir að ganga berserksgang gegn lögreglu.

Manninum er gefið að sök að hafa á Hellissandi í september valdið óspektum á almannafæri sökum ölvunar. Hann hafi opnað og reynt að opna hurðir á lögreglubifreiðum, barið með höndunum á ytra byrði lögreglubifreiðar og stuttu síðar hrifsað einkennishúfu af höfði lögreglumanns.

Þá er maðurinn ákærður fyrir að hafa skömmu síðar ráðist með ofbeldi að öðrum lögreglumanni, sem var við skyldustörf, með því að skalla hann í andlitið svo hann hlaut sár á neðri vör vinstra megin og bólgnaði mikið.

Loks er manninum gefið að sök að hafa eftir þetta, í lögreglubifreið á leið frá Útnesvegi að lögregluvarðstofunni í Ólafsvík, ráðist með ofbeldi og hótunum að lögreglumanni og ítrekað reynt að skalla hann. Lögreglumaðurinn náði að víkja sér undan höggunum. Þá hafði maðurinn í frammi hótanir um að valda lögreglumanninum líkamstjóni síðar og fá til þess aðra menn til liðs við sig.

Maðurinn játaði fyrsta lið ákærunnar þegar málið var þingfest, en neitaði sök í hinum tveim.- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×