Innlent

Lygasaga í kirkjugarði

Gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Mynd/Pjetur
Gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu. Mynd/Pjetur Mynd/Pjetur
Eigandi leiðsögufyrirtækisins Draugaferða í Reykjavík íhugar nú alvarlega hvort að ferðirnar í Gamla Kirkjugarðinn verði lagðar af vegna harkalegrar gagnrýni Þórs Magnússonar, fyrrverandi þjóðminjavarðar, sem sakar Draugaferðir um að spinna lygasögu um hálfsystur sína. Eigandinn hyggst fara í mál við hann vegna greinarinnar.

Það er ekki oft sem menn fara í hár saman út af draugasögu en sú er raunin. Þór Magnússon fyrrverandi þjóðminjavörður sakar leiðsögufyrirtækið Draugaferðir í Morgunblaðinu í dag um að spinna lygasögu um hálfsystur sína til að skemmta ferðamönnum.

Þeim er sögð saga af lítilli stúlku sem hét Fríða og var að vestan. Fríða þessi átti að hafa verið misnotuð kynferðislega af stjúpföður sínum, átti erfiða ævi, verið hænd að hröfnum sem ollu meðal annars tveimur bæjarbrunum þar sem stjúpfaðir hennar lét lífið. Skömmu síðar á hún að hafa fundist látin úti á hlaði með molað höfuð og segir sagan að móðir hennar hafi myrt hana. Litla stúlkan átti að hafa gengið aftur og voru því beinin grafin upp, flutt suður og jarðsett í Gamla Kirkjugarðinum.

Draugagangan endar svo við leiði stúlku sem heitir Fríða Magnúsdóttir. Sú Fríða var hins vegar hálfsystir Þórs sem lýsir megnustu fyrirlitningu á leiðsögninni, systir hans hafi látist sex ára gömul eftir botnlangakast - alsaklaus af draugagangi og bæjarbrunum.

Jónas Freydal eigandi draugaferða vildi ekki veita viðtal en hyggst fara í mál við Þór út af greininni, sem sé full af rangfærslum. Ætlunin hafi ekki verið að særa eða niðurlægja neinn og hann íhugi nú að leggja þessar ferðir niður. Draugasagan hafi byggst á flökkusögu og notast hafi verið við leiðið þar sem það hentaði vel.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.