Enski boltinn

Tottenham þurfti framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Burnley fagna þriðja marki sínu í kvöld.
Leikmenn Burnley fagna þriðja marki sínu í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Tottenham mætir Manchester United í úrslitum ensku deildarbikarkeppninnar þrátt fyrir 3-2 tap fyrir B-deildarliðinu Burnley í kvöld.

Tottenham vann fyrri viðureign liðanna með fjórum mörkum gegn einu á sínum heimavelli og áttu fáir von á að Burley tækist að brúa það bil.

En leikmenn Burley börðust frá fyrstu mínútu og náðu að skora þrívegis áður en venjulegur leiktími rann út. Það dugði til að knýja fram framlengingu þar sem að Tottenham skoraði tvívegis og tryggði sér þar með farseðilinn í úrslitaleikinn.

Robbie Blake, Chris McCann og Jay Rodriguez skoruðu mörk Burley en þeir Roman Pavlyuchenko og Jermain Defoe fyrir Tottenham. Bæði mörk gestanna komu í lok framlengingarinnar og úrslitin því nokkuð bitur fyrir heimamenn.

Jóhannes Karl Guðjónsson var í byrjunarliði Burnley í kvöld en var skipt af velli á 81. mínútu fyrir Rodriguez sem skoraði þriðja mark liðsins sjö mínútum síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×