Innlent

Lúxusbílar frá Porche seljast hér á landi

Þrír Lúxusbílar frá Porche, sem kosta tugi milljóna króna hver, hafa selst hér síðan um helgina, þegar þeir voru frumsýndir hérlendis.

Panamera er fyrsti fjögurra dyra sportbíllinn sem fyrirtækið hefur framleitt. Þetta er engin venjuleg kerra og er krafturinn í bílnum gífurlegur en kraftmesta útgáfan, Panamera Turbo, er aðeins 4 sekúndur í hundraðið. Hann var frumsýndur um helgina en þrír bílar voru þá komnir til landsins.

Svo virðist sem markaður fyrir svona lúxuskerrur sé enn til staðar hér á landi því samkvæmt heimildum fréttastofu eru þeir nú allir seldir. Bílabúð Benna, umboðsaðili Porsche, vildi þó ekki veita neinar upplýsingar um málið.

Bílarnir sem komu hingað til lands eru af gerðinni Turbo og 4S. Grunnverð þeirra er frá 20 upp í 29 milljónir króna. Svo má alltaf bæta við aukahlutum en listi þeirra sem eru í boði er langur og telur allt frá stærri bremsum upp í ísskáp á milli sætanna. Þá er einnig hægt að fá hljóðkerfi sem kostar upp undir eina milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×