Innlent

Verðlaunaður fyrir framlag sitt til læknavísindanna

Kári Stefánsson
Kári Stefánsson MYND/GVA
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Háskóla Íslands tók í gær við Anders Jahre verðlaununum sem veitt eru árlega í viðurkenningarskyni fyrir framúrskarandi árangur við rannsóknir í læknavísindum á Norðurlöndum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Háskóla Íslands í dag. Þar segir ennfremur að Jahre-verðlaunin, sem kennd eru við norska viðskiptajöfurinn Anders Jahre, hafa verið veitt frá árinu 1960. Þau eru ein hin virtustu sem veitt eru fyrir framlög til læknavísinda í Evrópu og þau stærstu á Norðurlöndum. Nemur verðlaunaféð einni milljón norskra króna, eða um 22 milljónir íslenskra króna.

Þá segir að tilkynnt hafi verið að Kári hlyti verðlaunin í ágúst síðastliðnum en afhendingin fór fram síðdegis í gær í viðhafnarsal Oslóarháskóla að viðstöddum Noregskonung.

„Kári er fyrstur Íslendinga til að hlotnast þessi heiður og hlýtur hann verðlaunin fyrir forystuhlutverk sitt í alþjóðlegum rannsóknum á erfðafræðilegum orsökum sjúkdóma í mönnum. Auk aðalverðlaunanna eru einnig veitt sérstök verðlaun til ungra vísindamanna og deila Svíinn Anders Tengholm og Finninn Jukka Westermarck þeim verðlaunum þetta árið, báðir fyrir rannsóknir sínar á sviði frumulíffræði," segir á vef Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×