Innlent

Afskrifa skuldir heimila

Ríkisstjórnin boðar afskriftir skulda hjá heimilum sem eru með yfirveðsettar eignir og ýmsar breytingar varðandi greiðsluaðlögun og greiðslujöfnun. Um tuttugu prósent heimila eru í vanskilum og verður sérstaklega horft til þeirra. Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að sem fyrst verði farið í byggingu Búðarhálsvirkjunar.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði að loknum löngum fundi ríkisstjórnarinnar í dag að hafa yrði í huga að vandi heimilanna lægi víða og því þyrfti að samræma aðgerðir margra aðila.

Meðal annars er rætt um frjálsa greiðsluaðlögun utan dómstóla í samningum fólks við fjármálastofnanir og að Íbúðalánasjóður geti veitt óverðtryggð lán sem og aðgerðir til að létta undir með þeim sem eru með gengistryggð lán. Aðilar vinnumarkaðrins og stjórnarandstaðan verða höfð með í ráðum við samningu nauðsynlegra lagabreytinga. Forsætisráðherra segir sumt hægt að gera fljótlega en annað taki einhvern tíma vegna lagabreytinga.

En ríkisstjórnin ræddi líka um orkumálin sem eru ein af megin forsendum við uppbyggingu atvinnulífsins. Þar er horft til fleiri kosta en álvera en engu að síður stefnt að því að orka verði tryggð fyrir álver í Helguvík og ráðist í byggingu Búðarhálsvirkjunar til að tryggja framleiðsluaukningu í Straumsvík. Það er framkvæmd upp á 20 til 25 milljarða.

Þá sagði Steingrímur horft til gufuaflsins á Þeistareykjum og í Bjarnaflagi fyrir norðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×