Enski boltinn

Mourinho og Ferguson fá sér vín saman í kvöld

Elvar Geir Magnússon skrifar

Jose Mourinho verður viðstaddur leik Manchester United og Chelsea á Old Trafford í dag. Á blaðamannafundi um helgina sagðist hann ætla að fá sér vínglas með Sir Alex Ferguson eftir leikinn.

Manchester United og Inter mætast í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Mourinho hlakkar til leiksins í dag.

„Það verður sérstakt að horfa á leikinn þar sem Chelsea var mitt lið. Það var mjög erfitt að vera án Chelsea í sjö mánuði en nú er það auðvelt því mér líður svo vel hjá Inter. Chelsea var mitt lið en er það ekki lengur," sagði Mourinho.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem aftur til Englands síðan ég yfirgaf Chelsea. Þetta verður tilfinningaþrungin stund. Ég fer til Old Trafford þar sem ég á góðar minningar. Í stúkunni mun ég finna fólk sem ég dái."

Mourinho telur Scolari vera að gera góða hluti með Chelsea og að liðið sé í ágætri stöðu. „Það kemur mér ekkert á óvart að Liverpool sé í efsta sætinu. Það hefur frekar komið mér á óvart að Liverpool hefur verið svona langt á eftir toppliðunum síðustu ár. Það finnst mér sérstakt," sagði Mourinho.

Spurður út í ummæli Rafael Benítez um Sir Alex Ferguson á blaðamannafundinum fyrir helgi sagði Mourinho: „Ég hef mætt með mitt lið nokkrum sinnum á Old Trafford og aldrei orðið vitni að neinu óvenjulegu varðandi Ferguson og dómarann. Það er samt eðlilegt að dómarinn finni fyrir pressu í andrúmsloftinu sem er þarna fyrir framan 80 þúsund áhorfendur," sagði Mourinho.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×