Fótbolti

Hiddink ætlar ekki að stýra liði á HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guus Hiddink, fyrrum landsliðsþjálfari Rússa.
Guus Hiddink, fyrrum landsliðsþjálfari Rússa. Nordic Photos / AFP

Guus Hiddink hefur útilokað að hann muni taka að sér að stýra liði á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem fer fram í Suður-Afríku næsta sumar.

Hiddink greindi frá því í dag að honum hafi staðið nokkrir kostir til boða en að hann hafi ákveðið að halda sig fjarri heimsmeistarakeppninni að þessu sinni.

Hiddink var landsliðsþjálfari Rússlands sem tapaði fyrir Slóveníu í umspili í síðasta mánuði. Hann sagðist hafa verið í rusli eftir leikinn og ekki afborið að horfa þegar dregið var í riðla á föstudaginn.

„Ég hef ekki gert mikið síðan leiknum lauk í Maribor. Ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum að hafa ekki komist á HM og ég hef ekki farið á annað knattspyrnuleik síðan. Það er óhugsandi tilhugsun eftir það sem gerðist. Þetta hafa verið mjög erfiðir dagar fyrir mig," sagði Hiddink við rússneska fjölmiðla.

Sem stendur er framtíð Hiddink óráðin en víst er að hann getur valið úr starfstilboðum þegar hann er reiðubúinn til viðræðna á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×