Innlent

Fordæmi eru fyrir því að fólk taki systkini sín í fóstur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er ekkert í íslenskri löggjöf sem útilokar það að Rebekka María Jóhannesdóttir geti séð um systkini sín eftir andlát móður þeirra. Þetta segir Hrefna Friðriksdóttir, lektor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi lögfræðingur hjá Barnaverndarstofu.

Við sögðum frá málum Rebekku Maríu Jóhannesdóttur á Vísi í gær og ítarlegt viðtal við hana birtist á Stöð 2 nú í kvöld. Móðir hennar féll frá henni og tveimur bræðrum hennar í lok síðasta mánaðar en faðir hennar lést fyrir tveimur árum. Rebekka vill hafa bræður sína áfram hjá sér enda hefur hún hugsað um þá í veikindum móður sinnar síðastliðið ár.

Hrefna segir að barnaverndarnefnd taki sjálfkrafa yfir forræði yfir eldri bróður Rebekku, sem er sjö ára og albróðir hennar. Rebekka geti hins vegar sótt um að fá hann í fóstur og gert fóstursamning við barnaverndanefnd. Hrefna segir að fordæmi séu fyrir þessu. „Ég man eftir tilvikum þar sem að systkini voru að sækja um að taka systkini sín í fóstur," segir Hrefna í samtali við Vísi.

Ferlið sé hins vegar öðruvísi í tilviki yngri bróðurins, sem er hálfbróðir Rebekku og á pabba á lífi. Í því tilfelli geri barnalögin ráð fyrir því að faðirinn fái forræðið. „Barnalög gera hins vegar líka ráð fyrir því að systirin geti óskaði eftir því að pabbinn afsalaði forsjánni til sín eða þá að hún getur höfðað mál á grundvelli barnalaga," segir Hrefna. Í slíku tilfelli myndi systirin krefjast þess að dómstóll dæmdi henni forsjá í stað þess að dæma pabbanum það. „Þá er það bara vegið og metið hjá hvorum þeirra hagsmunum barnsins er betur borgið," segir Hrefna.

Hrefna segir því að það sé tvennt ólíkt sem Rebekka þurfi að gera í stöðunni. Annars vegar að krefjast forræðis yfir yngri bróðurnum og hins vegar að óska eftir því að gerast fósturforeldri eldri bróðurins. „Það er ekkert sem er útilokað fyrirfram í þessum efnum. Þarna eru möguleikar sem hún getur látið reyna á," segir Hrefna.



Smelltu á hlekkinn „Horfa á myndskeið með frétt" hér að ofan til þess að sjá Rebekku í einlægu viðtali við Ísland í dag.








Tengdar fréttir

Berst fyrir forræði yfir bræðrum sínum

Rebekka María Jóhannesdóttir, 22 ára gömul kona úr Hafnarfirði, berst nú fyrir forræði sjö ára og tæplega tveggja ára gamalla bræðra sinna eftir að móðir þeirra féll frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×