Enski boltinn

Tottenham er í viðræðum við Palacios

NordicPhotos/GettyImages

Harry Redknapp knattspyrnustjóri Tottenham hefur staðfest að félagið sé nú í viðræðum við miðjumanninn Wilson Palacios hjá Wigan eftir að félögin komu sér saman um kaupverð.

Talið er að Wigan sætti sig við um 14 milljónir punda fyrir Hondúras-manninn duglega, en þó er ekki loku fyrir það skotið að Manchester City bjóði í hann jafnvel þó það sé nú í viðræðum við hollenska landsliðsmanninn Nigel de Jong hjá Hamburg.

Tottenham hefur þegar þurft að horfa á eftir Craig Bellamy til Manchester en Harry Redknapp hafði mikinn áhuga á að fá hann til liðs við sig.

"Hann er baráttumaður og góður knattspyrnumaður, en fá lið í heiminum eru samkeppnishæf þegar Manchester City kemur til skjalanna," sagði Redknapp.

"Við erum að vona að við getum gengið frá kaupum á Palacios, en fyrir utan hann er ekkert að gerast í leikmannamálum hjá okkur," sagði Redknapp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×