Íslenski boltinn

Steinþór: Urðum bara betri manni færri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Steinþór Freyr Þorsteinsson. Mynd/Valli

Steinþór Freyr Þorsteinsson átti mjög góðan leik þegar Stjörnumenn unnu 2-1 sigur á Fylki í kvöld. Steinþór skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara auk þess að skapa mikinn usla í vörn Fylkis allan leikinn.

„Þetta var flott hjá okkur en við ættum kannski að vera orðnir vanir því að verða einum manni færri og missa mann útaf. Við erum kannski komnir í æfingu," sagði Steinþór í léttum tón og bætti við. „Við létum þetta ekkert á okkur fá og urðum bara betri ef eitthvað er," sagði Steinþór.

„Þetta er fín liðsheild hjá okkur. Eins og sjá má eru kröftugir menn í liðinu og við erum í fínu formi. Ég er mjög ánægður með þetta," sagði Steinþór.

Steinþór átti bæði mörk Stjörnunnar í leiknum og hefur nú komið að 11 af 15 mörkum liðsins í fyrstu fimm umferðum deildarinnar.

„Ég er að spila sem framliggjandi miðjumaður sem er akkurat þessi staða þar sem maður er að búa til mörk fyrir félagana eða að stinga sér í gegnum vörnina. Þetta heppnaðist mjög vel í þessum leik," sagði Steinþór.

„Það voru fullt af fleiri færum sem við hefðum getað klárað og þeir fengu síðan færi líka. Það var flott að klára þetta," sagði Steinþór áður en hann þaut inn í sigurhátíðina inn í Stjörnuklefanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×