Innlent

Hlín: Ráðning þjóðleikhússtjóra var leikrit

Einn umsækjenda um stöðu þjóðleikhússtjóra gagnrýnir ráðningarferlið harðlega og segir það sýndarmennsku frá upphafi til enda. Hún segir að aldrei hafi annað staðið til en að ráða niðurskurðarmeistara í starfið og íhugar að kæra ráðningarferlið til umboðsmanns Alþingis.

Tinna Gunnlaugsdóttir var skipaður þjóðleikhússtjóri áfram nú fyrir skömmu en átta aðrir umsækjendur voru um starfið. Þeir fengu rökstuðning menntamálaráðherra fyrir ráðningu Tinnu senda í pósti nú á föstudaginn. Rökstuðningurinn er á níu blaðsíðum skrifuðum af Baldri Guðlaugssyni ráðuneytisstjóra og er að mati Hlínar Agnarsdóttur, sem var í hópi umsækjenda, ein allsherjar réttlæting á óhjákvæmilegri niðurstöðu

„Það sem er nú merkilegt í þessu að það hefur verið ákveðið að ráða niðurskurðarmeistara og rekstrarstjóra en ekki listrænan stjórnanda samkvæmt þessu plaggi frá ráðuneytinu. Það segir mér það að þetta hefur kannski bara verið ákvörðun sem var búin að taka fyrir löngu í ráðuneytinu og að allt umsóknarferlið, sem er nú búið að taka heila fimm mánuði, hafi bara verið sýndarmennska frá upphafi til enda og einhverskonar réttlæting á gjörðum embættismannanna í þessu samhengi," segir Hlín.

Hlín gagnrýnir meðal annars að Tinna hafi verið ráðin að miklu leyti til vegna niðurskurðarhugmynda sem hún kynnti í ráðningaferlinu. Aðrir umsækjendur hafi ekki haft aðgang að gögnum og upplýsingum til að geta mótað slíkar hugmyndir.

„Mér finnst við sem umsækjendur hafi verið dregin á asnaeyrunum. Við borum beðin um að koma með okkar framtíðarsýn í okkar umsóknum en aldrei neinar niðurskurðartillögur. Ég get ekki betur séð en að þetta hafi verið óþarfi, að ráðuneytið hafi ekki þurft að leggja út í alla þessu vinnu," segir Hlín.

Hlín segir að jafnræðis hafi ekki verið gætt og hún íhugar að kæra ráðningarferlið allt til umboðsmanns Alþingis.

„Það er greinilega búið að brjóta ákveðnar reglur í stjórnsýslulögum því við komum ekki jöfn að þessu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×