Innlent

Lækka lífeyri um tíu prósent

Hrafn Magnússon
Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir meðalskerðingu lífeyrisréttinda verða um fimm prósent.
Fréttablaðið/ÞÖK
Hrafn Magnússon Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir meðalskerðingu lífeyrisréttinda verða um fimm prósent. Fréttablaðið/ÞÖK

Nokkrir lífeyrissjóðir munu að öllum líkindum skerða réttindi í vor, vegna slæmrar stöðu í kjölfar bankahrunsins. Þeir eru Gildi, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Almenni lífeyrissjóðurinn, Stafir, Lífeyrissjóður Vestfirðinga og Festa. Almennt munu þeir skerða réttindin um tíu prósent.

Flestir lífeyrissjóðir skerða ekki réttindi. Að mati Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, mun meðalskerðing lífeyrisréttinda nema um fimm prósentum.

Um síðustu áramót tóku gildi tímabundnar breytingar á lífeyrissjóðalögum. Þær fólu í sér að ekki væri nauðsynlegt að skerða réttindi við neikvæða tryggingafræðilega stöðu ef hún væri innan við fimmtán prósent. Áður var viðmiðið tíu prósent. Tryggingafræðileg staða segir til um getu lífeyrissjóða til að standa við lífeyrisskuldbindingar í framtíðinni.

Nokkrir sjóðir, sem höfðu stöðu innan við fimmtán prósenta mörkin, tóku ákvörðun um að skerða réttindi engu að síður. Hrafn segir þá ákvörðun eðlilega. Betra hafi verið að grípa strax til ráðstafana í stað þess að bíða.- hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×