Enski boltinn

Sex stiga leikur á St James´ Park í kvöld

Alan Shearer og félgar í Newcastle verða að vinna í kvöld
Alan Shearer og félgar í Newcastle verða að vinna í kvöld Nordic Photos/Getty Images

Gríðarlega mikið verður í húfi í kvöld þegar Newcastle tekur á móti Middlesbrough í fallslag í ensku úrvalsdeildinni.

Liðið sem vinnur leikinn nær að koma sér upp að hlið Hull City og ef Newcastle vinnur leikinn, kæmist liðið úr fallsæti af því það er með betra markahlutfall en Hull.

Alan Shearer, settur knattspyrnustjóri Newcastle, kallar leikinn þann stærsta á sínum ferli, en hann hefur reyndar lýst hverjum einasta leik hjá Newcastle með þeim orðum á endasprettinum.

Gareth Southgate stjóri Middlesbrough vonast til að geta kafað í 20 ára reynslubanka sinn til að ná hagstæðum úrslitum í kvöld.

"Maður hefur séð ýmislegt á tuttugu árum í boltanum og ef maður getur ekki nælt sér í reynslu í þeim leikjum, er tilgangslaust að spila þá. Flesta þessa leiki spilaði ég vissulega sem leikmaður, en ég hef lært að eiga við pressuna engu að síður," sagði Southgate.

Síðustu fjórir leikir Newcastle og Boro hafa endað með jafntefli og Boro hefur ekki unnið á St James´ Park síðan árið 2001.

Reyndar hefur Newcastle ekki gengið sérlega vel með Boro á heimavelli, því liðið hefur ekki unnið þá viðureign síðan árið 2004 þegar stjórinn Shearer skoraði sigurmarkið.

"Leikmennirnir vita hvað er í húfi í þessum leik. Við verðum að reyna að létta pressunni og skora snemma, en við verðum líka að vera klókir. Þetta er stærsti leikur sem ég hef tekið þátt í á ferlinum," sagði Alan Shearer.

Staða neðstu liða í úrvalsdeildinni (sæti, lið, leikir, stig):

15. Portsmouth 36 -38

16. Sunderland 36 -36

17. Hull City 36 -34

18. Newcastle 35 -31

19. Middlesbrough 35 -31

20. West Brom 36 -31

Smelltu hér til að sjá stöðuna í deildinni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×