Erlent

Segir hervald tilgangslaust

Biden í Georgíu Við komuna til Tíblisi bauð Saakashvili forseti Biden upp í glerhvelfinguna efst í forsetabústaðnum.fréttablaðið/AP
Biden í Georgíu Við komuna til Tíblisi bauð Saakashvili forseti Biden upp í glerhvelfinguna efst í forsetabústaðnum.fréttablaðið/AP
Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, ráðleggur Georgíustjórn eindregið að reyna ekki að fara með hervaldi gegn Rússum til að endurheimta héruðin Suður-Ossetíu og Abkasíu.

„Það er dapurleg staðreynd, en satt engu að síður, að engin hernaðarleið er opin til endursameiningar,“ sagði Biden í heimsókn sinni til Georgíu í gær. Eina leiðin væri að bjóða upp á friðvænlegt og blómstrandi mannlíf í Georgíu.

Hins vegar bætti hann því við að Bandaríkin myndu styðja Georgíu til að endurheimta héröðin, svo fremi sem frelsi og lýðræði verði í hávegum haft í Georgíu.

Biden hefur verið á ferðalagi um fyrrverandi Sovétlýðveldi nú í vikunni, hélt fyrst til Úkraínu og síðan til Georgíu. Í báðum löndunum hafði hann sama boðskap að færa: Bandaríkin muni veita þessum löndum fullan stuðning gagnvart hugsanlegri afskiptasemi Rússlands.

Í Georgíu tók hann fram í gær, að þótt Bandaríkin séu núna að reyna að bæta samskiptin við Rússland, þá muni það ekki bitna á samskiptum Bandaríkjanna og Georgíu.

Meðan Biden ferðast um Kákasuslöndin hefur Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, verið á ferðalagi í Asíu, þar sem hún hefur meðal annars gagnrýnt bæði Búrma og Norður-Kóreu.

Í gær var hún í Taílandi og sagði að Norður-Kóreustjórn ætti enga vini lengur, sem styddu kjarnorkuáform hennar.

Frá utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu bárust hins vegar eins konar svör, þar sem gert var lítið úr Clinton og henni sendar háðsglósur. Hún var sögð „skrýtin kona“ sem ýmist lítur út eins og grunnskólastelpa eða gömul kona í verslunarferð.

Ri Hung Sik, talsmaður samninganefndar Norður-Kóreu, sagði enn fremur stefnu Bandaríkjanna gagnvart Norður-Kóreu einkennast af djúpstæðu hatri. „Sex ríkja viðræðunum er lokið,“ sagði hann, og fullyrti að Norður-Kórea muni ekki taka þátt í frekari viðræðum um kjarnorkumál sín við Bandaríkin, Kína, Rússland, Japan og Suður-Kóreu.

gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×